2006-03-31

 
Tímataka í Ástralíukappakstrinum í nótt. Held ég nenni samt ekki að vakna til að horfa. Læt nægja að horfa á endursýningu í fyrramálið.

 
Við hjónakornin fórum fínt út að borða í kvöld. Ákváðum að prófa Humarhúsið. Höfðum aldrei borðað þar áður, þótt ótrúlegt megi virðast. Það kom náttúrlega ekki annað til greina en að fá sér humar (en ekki hvað?). Ég fékk mér rétt þar sem var blandað saman grilluðum humri, gratíneruðum humri og kanadískum humri. Sá gratíneraði var langbestur. Hildigunnur fékk sér rétt, sem kallaðist Aflakló, blöndu af ýmsum sjávarréttum. Skæjuðum svo út í víninu. Fengum okkur kampavín með. Veuve clicquot brut '98. Passaði eins og flís við rass með humrinum. Ég man ekki eftir því að við höfum pantað flösku af kampavíni áður á veitingastað. Eftirréttirnir voru svo fínir súkkulaðikaka og crème brûlée. Aftur misstum við okkur í vínunum. Tokaji og Sauternes. Langt síðan ég hef fengið svona góðan mat á veitingastað.

2006-03-29

 
Menn greinilega að deyja úr landafræðiþekkingu á textavarpinu. Flóð í Tékklandi og áin Valatva við það að flæða yfir bakka sína hjá Prag. Síðast þegar ég vissi hét áin Vltava á ylhýrri tékknesku. Moldá hefði líka verið fínt.

 
Finnur átti eitt gullkorn í gær.
Við vorum nýkomnir af leikskólanum. Hann var að syngja eitthvert lag Nú er frost á Fróni minnir mig. Síðan segir hann: „Pabbi ég veit að þú hefur sungið þetta lag.“ Ég: „Jæja Finnur minn. Hvernig veistu það?“ Finnur: „Þú varst einu sinni lítill eins og ég.“
Við Hildigunnur fórum bæði að skellihlæja...

2006-03-23

 
Stundum líður mér eins og ég sé Sefíði

 
Lost teaser kvöldsins:
...Jack and Locke are too busy worrying about Locke and Jack...

 
Náði að rugla Hildigunni aðeins í ríminu í dag. Forsagan er sú að ég er að lesa bók um dulkóðun (Cryptography theory and practice e. Douglas R. Stinson). Í henni voru stærðfræðiatriði, sem ég er ekkert allt of sleipur í. Þannig að ég fékk Bjössa bróður til að senda mér glósur úr kúrsinum, til nánari útskýringar (á vinnupóstfangið mitt). Síðan sendi ég póstinn áfram með fyrirsögninni „Skemmtiefni“. Hildigunnur opnaði póstinn og svo viðhengin með glósunum. Hefði viljað sjá svipinn á henni þegar hún renndi í gegn um glósurnar...

 
Var að hlusta á Spegilinn í kvöld. Þar var m.a. viðtal við Andra Snæ í sambandi við bókina, sem var að koma út eftir hann. Í því kom fram að í Bandaríkjunum er ekki greitt neitt skilagjald á flöskur og dósir. Ástæðan: Áldósaframleiðendur stunda gangapot í þeim tilgangi að koma í veg fyrir að skilagjaldi verði komið á. Ég varð alveg agndofa, þvílík sóun (reyndar trúi ég því ekki að þetta gildi fyrir öll Bandaríkin).

2006-03-19

 
Og ég sem hélt að það væri komið vor. Nú eru veðurfræðingarnir á VÍ að hræða mann með að það sé bara frostakafli framundan. Brrr...

 
Þá er því aflokið.
Bónaði bílinn í dag. Fór síðan á tónleika með áhugamannahljómsveitinni með fullan bíl af börnum. Okkar 3 + dansvinkonu Freyju. Skemmtilegir tónleikar.

2006-03-17

 
Ég er ekki viss um að ég vilji fara í lyfjaprófunarhóp um þessar mundir. Síðastliðna 2 daga hafa 2 lyfjaprófunarhneyksli verið í fréttum. Eitt í Bretlandi og annað í Japan (eftir því sem ég best veit var um mismunandi lyf að ræða). Í Japan var meira að segja verið að prófa lyf, sem hefur verið á markaði. Bara önnur notkun á lyfinu. Í Bretlandi urðu 2 af 6 sem fengu lyfið mjög alvarlega veikir. Í Japan held ég að 11 hafi látist. Maður veltir fyrir sér hvaða reglur gilda um svona lyfjaprófanir. Ekki svo að skilja. Lyfið Vioxx var sett á markað og komst í gegnum allar síur. Var meir að segja söluhæsta lyf í sínum flokki hér á landi áður en kom í ljós að það var ekki allt þar sem það var séð. Í Bandaríkjunum létust að minnsta kosti nokkrar þúsundir manna, líklega tugir þúsunda (ég hef séð töluna 40.000) áður en það var tekið af markaði. Miðað við höfðatölu gæti þetta hafa þýtt 5-40 dauðsföll hér á landi.

 
Eru allir stafir hvorugkyns?

 
Nú er ég sáttur. č-ið í strč er orðið eðlilegt. Og það án þess að ég gerði nokkurn skapaðan hlut. Þegar ég setti það fyrst inn var það eins og það er núna. Síðan breyttist það, varð mjótt og aumingjalegt en nú er það orðið eins og það á að sér að vera. Vona að það haldist svona áfram.

2006-03-13

 
Nú er að byrja keppnistímabilið í eina sportinu, sem ég fylgist eitthvað með. Fyrsta keppnin í F1 á tímabilinu var í gær. (Veit að margir skilja ekki hvað er spennandi við að horfa á bíla aka í hringi en semsagt þetta er sportið mitt). Og þvílík keppni. Munaði aldrei meira en 4-5 sekúndum á 1. og 2 manni. Sem er mikill munur frá t.d. 2001, 2002 og 2004. Allavega ef eitthvað var að marka keppnina í gær ætti þetta keppnistímabil að geta orðið mjög spennandi. Virðast vera 4-5 lið sem ættu að geta unnið mót. Mínir menn (McLaren) lentu í þvílíkum ógöngum en með snilldarakstri náði Kimi að bjarga ómögulegri stöðu (aftastur á ráslínu) í 3. sæti. Annar sem vakti athygli mína var Nico Rosberg. Nýliði, sem lenti í árekstri á fyrsta hring og var aftastur að honum loknum. Náði samt að pota sér upp í 7. sæti. Verður spennandi að sjá hann í næstu keppni.

 
Til hamingju með afmælið Hildigunnur á morgun. Þar sem er ekki bloggdagur á morgun þá tek ég nokkurra mínútna forskot á afmæliskveðjuna.

2006-03-11

 
Var að enda við að lesa bakþanka í Fréttablaðinu. Guðmundur Steingrímsson fór á kostum. Pistillinn heitir Skuldafen og endar á eftirfarandi orðum:
Það er reyndar huggun í þeirri allra svörtustu framtíðarsýn að gárungar segja að fuglaflensan muni að öllum líkindum einungis herja á monthana, vindhana, hermikrákur, furðufugla, spéfugla og grallaraspóa. Gæsa og steggjapartí gætu líka orðið mjög illa úti.
Ég hef reyndar smá áhyggjur af þessu með furðufuglana...

 
Við vorum í fertugsafmæli hjá frænku hennar Hildigunnar áðan. Allri fjölskyldunni boðið. Eftir forrétt og aðalrétt (sem nóta bene voru þvílíkt vel útilátnir) fékk Finnur það verkefni að rétta afmælisbarninu gjafir til opnunar. Hann var búinn að rétta 2 gjafir og svo var komið að 3. gjöfinni, sem var líkjörsflaska í glærum sellófanpappír. Um leið og Finnur rétti Hildu pakkann þá sagði hann: Þetta er ógeðslega auðvelt að vita!

 
Sveiflurnar í íslensku veðurfari. Þegar ég kom úr vinnunni í dag þá var vorveður. 6 stiga hiti og nánast logn. Þ.a. við ákváðum að grilla. Þegar ég var rétt búinn að kveikja á grillinu byrjaði að rigna og kólna. Núna horfi ég út um gluggann á hundslappadrífu og birkitréð úti í garði orðið eins og á jólakorti.

2006-03-07

 
Góðir þarna hjá BT net.
Auglýsa ókeypis fartölvu ef þú bindur þig í 36 mánuði (fyrir 6000 kall á mánuði). Á sama tíma er hægt að kaupa áskrift að einhverju sem þeir kalla V16 extra light, vera bundinn í 36 mánuði og borga 3900 fyrir á mánuði. Mismunurinn um 75 kall á samningstímanum. Einhvern veginn þá hef ég ekki áhuga.

2006-03-05

 
Ætlaði að fara með blöð og fernur í gám áðan. Gámurinn var horfinn þannig að ég gat ekki losað mig við draslið. Það hafði samt ekki komið í veg fyrir að einhverjir á undan mér höfðu skilið eftir fullt af blaða og fernupokum þar sem gámurinn hafði verið. Hvað þarftu að vera fatlaður í hausnum til að gera eftirfarandi: Blaðagámurinn sem var hérna einu sinni er ekki lengur hérna. Ég skil draslið bara eftir hérna samt...

 
Argh. Hildigunnur stal glæpnum. Hef í rauninni lítið við færsluna um vínkynninguna að bæta. Og þó: annað og þriðja vínið voru frá Spinetta, ekki frá Sandrone. Síðasta vínið í fyrstu seríu af þremur vakti reyndar mestan áhuga hjá mér. Sammála með siðustu þrjú vínin, þau voru langbest. Það var reyndar nokkurn veginn viðbúið svona miðað við aldur og fyrri störf. Ef ég ætti að mæla með einu víni af kynningunni þá myndi ég mæla með la Spinetta Barbera d'Asti Superiore Bionzo 2003.

2006-03-03

 
Las það einhvers staðar í dag - gott ef það var ekki á mublinu - að maður Nigellu Lawson (einhver drulluríkur auglýsingamógúll) þyldi ekki matreiðsluna hennar. Tekið var dæmi um einhvern rækjurétt, sem maðurinn hafði borðað fyrir kurteisissakir en lýst því síðan yfir eftir á að hann væri hræðilegur. Breti hvað? Kannski vill hann heldur hjarðsveinaböku.

 
Bjössi yngri bróðir minn er þrítugur í dag (hann er að læra úti í Danmörku og þess vegna erum við ekki í afmæli). Til hamingju með afmælið Bjössi.

 
Finnur var í kóngulóarmannsbúningi á öskudaginn. Þegar ég kom að sækja hann þá voru 3 kóngulóarmenn hoppandi á trampólíninu í stóra sal og ekki nokkur leið að vita hver var hvað. Í dag sýndi Kalli á deildinni hans Finns mynd frá öskudeginum. Þá höfðu 8 guttar mætt í slíkum búningum (þó ekki nema 3 á Finns deild).

2006-03-02

 
Var þetta ekki annars merki um innibyrgða bloggþörf?

 
Finnur átti líka góðan punkt um helgina í matarboði. Klukkan var líklega að verða 8. Vorum rétt að enda við að útbúa forréttinn og settumst andartak niður til að spjalla við gestina meðan við kláruðum fordrykkinn. Þá kemur Finnur inn greinilega mjög áhyggjufullur og sagði: „Eruð þið ekki að verða búin að tala?“

 
Náði Vandræðaunglingnum annars vel í gær. Hún var eitthvað að skima upp í skáp og sá þar 2 snigladósir. Samtalið hljóðaði eitthvað á þessa leið: Fífa: Pabbi, hvað eru þessar snigladósir að gera uppi í skáp? Ég: Átti ekki að vera sniglasúpa á morgun? Fífa: SNIGLASÚPA???

Þarf kannski ekki að taka það fram að sniglar komast ekki inn á topp 10 listann hjá henni.

 
Þá er lengsta (náttúrlega) blogghlé ársins liðið. Frá 23. feb. til 2. mars er enginn prímtöludagsetning. Hugsið ykkur bara hvað þið eruð búin að missa af mörgum skemmtilegum bloggum sem ég er náttlega búinn að steingleyma núna.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?