2007-03-11

 

Lokafærsla

Er ekki hættur að blogga en hef fært mig um set. Kominn með síðu á Wordpress, hér. Kæru lesendur, þeir ykkar sem eru með hlekk á mig, ég yrði mjög glaður ef þið væruð til í að uppfæra hjá ykkur :-)

Efnisorð:


2007-03-07

 

Nóg komið

af ferðasögum í bili.

Í gær hjólaði ég í fyrsta skipti á þessu ári í vinnuna. Var kominn svolítið áleiðis þegar ég áttaði mig á því að það var smá hálka sums staðar. Var þá kominn of langt til að snúa við. Hjólaði bara mjög rólega það sem eftir var leiðarinnar. Komst án áfalla á leiðarenda.

Stefnan er svo að halda þessu áfram og reyna að gera eins og í fyrra. Hjóla í vinnuna svona 2-4 sinnum í viku.

Efnisorð:


 

Enn

um ferðina.

Barinn á Hótel Kea skoraði mörg stig hjá okkur um helgina. Kíktum þar inn á laugardagskvöldið og af rælni spurðum við hvort þar væri hægt að fá McAllan viskí. Bjuggumst ekkert frekar við því. Heyrðu, þá áttu þeir til 6 eða 7 mismunandi tegundir af því! Heil hilla á barnum bara undir McAllan. Þokkalega flott. Við fengum okkur það næstelsta sem var til eða 25 ára. Flauelsmjúkt.

Efnisorð:


2007-03-05

 

Akureyri

Stundum kemur það sér vel að ganga með vasahníf. Íbúðin, sem við vorum með var mjög sparlega búin tækjum og tólum (nema glösum). Það var til dæmis enginn upptakari, lélegur tappatogari og enginn beittur hnífur. Swiss army knife reddaði öllu þessu. Er verið að passa upp á að maður drekki ekki frá sér ráð og rænu eða fari sér að voða? ;-)

Já og svo þurfum við að muna að skila lyklinum...

Efnisorð:


 
Við hjónakornin skruppum í skotferð norður til Akureyrar eins og sjá má t.d. hér.

Á leiðinni norður þá gerðist það fjórum sinnum að Lexusbílar tóku fram úr okkur. Fyrst nálægt Borgarnesi síðan einhvers staðar á Holtavörðuheiðinni og í þriðja skipti í Vatnsskarðinu. Í sjálfu sér ekki merkilegt nema að í fyrsta og tvö síðastu skiptin var um sama bílinn að ræða. Hann hefur sjálfsagt stoppað einhvers staðar til að næra sig. Við aftur á móti vorum með nesti og stoppuðum mjög stutt.

Í fyrstu tvö skiptin, var Lexusinn horfinn eftir smá stund. Við hugsuðum ekki meira um þetta þangað til við sáum blá blikkandi ljós í Skagafirðinum, rétt áður en var lagt á Öxnadalsheiði. Ég sagði þá við Hildigunni: „Ætli þetta sé ekki Lexusinn, sem er búinn að æða fram úr okkur.“ Og mikið rétt, það var hann. Við gátum ekki gert að því að glotta svolítið að þessu.

Á miðri Öxnadalsheiðinni tók hann svo fram úr okkur í þriðja skipti. En það var samt ekki eins mikið span á honum og í fyrri tvö skipin.

Efnisorð:


This page is powered by Blogger. Isn't yours?