2006-02-23

 
Við Hildigunnur fórum á War of the Worlds tónleikana með Sinfó í kvöld. Þetta voru í einu orði sagt frábærir tónleikar. Jóhann var ágætis lesari (auðvitað enginn Burton samt). Söngvararnir allir góðir. Síðan er þessi músík bara svo mikil snilld. Og alveg ótrúlegt hvað gaurarnir á hljómborðunum náðu hljóðunum af upprunalegu útgáfunni. Eina sem pirraði okkur var þegar Friðrik Ómar þurfti endilega að dilla sér undir tónlistinni á meðan dramatískum lestri stóð. Frekar hallærislegt. Textarnir, bæði lesnir og sungnir, höfðu allir verið þýddir og það snilldarvel. Af hverjum kom reyndar ekki fram í prógramminu en við fréttum eftir tónleikana að Gísli Rúnar hefði séð um þá hlið mála.

 

James Bond kann ekki að keyra

Ég sá einhvers staðar frétt um að nýi James Bond leikarinn (hvað sem hann heitir nú aftur) hefði komið á óvart í tökum um daginn. Þá átti hann að keyra flotta Aston Martin bílinn úr fyrstu Bond myndinni. Þegar til átti að taka sagðist hann ekki geta keyrt bílinn, því hann væri bara með bílpróf á sjálfskiptan bíl!
Úr þessu gætu komið vandræðalegar flóttasenur...

2006-02-19

 
Við sáum auglýsingu frá ÓB í gær. Þegar við sáum netslóðina (ob.is) þá hugsaði Hildigunnur: Túrtappar? og ég: obese?

 
Þar kom að því. Ég hef nánast ekkert fylgst með vetrarólympíuleikunum fram að þessu. Bætti úr því í dag. horfði á skíðaboðgöngu kvenna og karla. Lá bara í leti og lét efnið fljóta yfir mig. Það er náttúrlega nett bilun að horfa á tvær svona keppnir í röð.

 
Grunnskólar Reykjavíkur voru með sýningu í Ráðhúsinu í gær. Freyja tók þátt í atriði Austurbæjarskóla. Gekk bara vel. Fjölmenningarlegt söngatriði à la Austurbæjarskóli.

Á leiðinni heim þá sáum við starahóp á flugi. Fuglarnir greinilega að hópa sig fyrir kvöldið. Svo sáum við hópinn setjast niður. Lendingarstaðurinn var alveg þokkalega stórt hús á Skólavörðustígnum. Sjónvarpsloftnetið á húsinu var þéttsetið. Þeir fuglar sem komust ekki fyrir á því settust á mæninn á húsinu. Þeir fuglar sem náðu ekki sæti þar urðu að gera sér að góðu að hanga utan á þakinu. Stundum er vont að ganga ekki með myndavél á sér að staðaldri.

2006-02-17

 
Nældi mér í tvo miða á Sinfó þar sem flutt verður War of the worlds eftir Jeff Wayne nk. fimmtudag. Þetta er músík sem er í uppáhaldi bæði hjá mér og Hildigunni. Það verður spennandi að sjá hvernig þetta mun koma út hjá Sinfó. Ég vildi samt ekki vera sögumaðurinn (þ.e.a.s. ef honum er haldið inni) og lenda í því að vera borinn saman við Richard Burton á upprunalegu útgáfunni.

2006-02-13

 
Við Fífa horfðum á Attenborough þáttinn áðan (Lífið í lággróðrinum). Margar skringilegar skepnur, sem sýndar voru þar. Fífa missti síðan út úr sér þegar voru sýndir ungar einhverskonar lappalangrar kóngulóar: „Þetta eru afstyrmi!“

 

Snillingur

Berlusconi er snillingur. Í fyrradag líkti hann sjálfum sér við Napóleon (Bónaparte væntanlega). Í gær líkti hann sjálfum sér við Jesú. Er ekki enn búinn að sjá hver varð fyrir valinu í dag.

2006-02-11

 
Sjálfsagt eru einhverjir búnir að sjá þetta. Fékk þetta sent í pósti og mér fannst þetta bara svo mikil snilld að ég varð að skella þessu inn:

Bekkjarafmælið
Ósk Ýr gekk rösklega með Brand Ara í afmælið til Egils Daða því hún var
að verða of sein að sækja Leif Arnar og Loft Stein í leikskólann.
Borgar Vörður, pabbi Egils Daða, tók á móti þeim.
Þarna voru Lind Ýr, Líf Vera, Sól Hlíf, Ævar Eiður og Hreinn Bolli.
Erlendur Hreimur kom blaðskellandi innan úr stofunni og vinkonurnar
Vísa Skuld og Dís Ester fast á hæla honum.
Mýra Þoka lét lítið fyrir sér fara úti í horni.
Innan úr herbergi Egils Daða bárust ógurlegir skruðningar – “#%=&#$&/(=!z#$!/!=!
Línus Gauti, Barði Vagn og Mist Eik voru greinilega mætt. En hvar var Ríta Lín?
Fyrir utan var Sædís Líf í rauðum fólksvagni.
Hægt og sígandi nálgaðist Jökla Þoka eftir stígnum.
Hún var orðin alltof sein í afmælið.

 
Ég eldaði í gærkvöldi ostalasagnað, sem Nanna talaði um á blogginu sínu í vikunni. Bjó meira að segja pastað til sjálfur. Það er nú ekki oft, sem það gerist. Það er óhætt að mæla með uppskriftinni, hún er stórfín. Prófa kannski næst að setja smá gráðost út í sósuna.

 

Stóru bandarísku pallbílarnir

Mér hefur alltaf fundist þessir bílar algerlega út í hött. Þeir henta kannski fyrir byggingaverktaka eða búgarðseigendur í Texas en fyrir venjulegt fólk, ég tala nú ekki um borgarumferð eru þeir alveg glataðir. Síðan eyða þeir eins og meðal farþegaskip. En nú að því sem ég ætlaði að tala um.
Ég sá í fyrradag (stundum er það pirrandi að blogga ekki nema á prímtöludögum) ansi gott atriði þar sem slíkur pallbíl kom við sögu. Ég og Freyja vorum að koma úr sellótíma í Suzuki skólanum í Sóltúni. Þar í kring er verið að byggja á fullu og búið að setja umferðarkeilur út á götu til að vara mann við einhverjum holum í götunni. Við Freyja ætluðum að aka út af bílastæðinu hjá Suzuki skólanum. Þá kemur risastór pallbíll, fram hjá Ármannsheimilinu, inn á Hátúnið og ekur á eina keiluna. Ökumaðurinn tók greinilega ekkert eftir því. Ók bara áfram eins og ekkert hefði í skorist eftir Hátúninu og ýtti keilunni á undan sér. Við Freyja ókum í humátt á eftir og veltum fyrir okkur hvað liði langur tími áður en ökumaðurinn áttaði sig á þessu. Hann virtist hins vegar vera með slökkt á flestum ef ekki öllum skilningarvitum og það síðasta sem við sáum til hans var að hann beygði inn á stæði við blokkina næst Laugaveginum. Talandi um að taka eftir hvað er að gerast í kringum sig!

2006-02-07

 
Segi bara eins og þau hjá IBM:
Þetta bloggsvæði var viljandi skilið eftir autt.

2006-02-05

 
Ein ódýr færsla:

Er að lesa Notes from a small island eftir Bill Bryson. Á einum stað í bókinni rakst ég á þetta: „I took a train to Liverpool. They were having a festival of litter when I arrived. Citizens had taken time off from their busy activities to add crisp packets, empty cigarette boxes, and carrier-bags to the otherwise bland and negleted landscape.“
Þetta minnir afskaplega mikið á Reykjavík þessa dagana.

 

Treflar

Heilmikil umræða um hnakka og trefla í matarklúbb í kvöld.

Vinkona okkar hafði ekki hugmynd um þessi hugtök en tók eftir fullt af gaurum með næstum því eins röndótta trefla á Galileo um daginn. Hún og vinkona hennar sáu gott tækifæri, gaurarnir kipptu vel og voru uppteknir í samræðum þannig að þær náðu að binda saman alla 5 eða 6 treflana þeirra í eina lengju. Sátu svo í kasti úti í horni (algerlega edrú, nóta bene) þegar þeir uppgötvuðu þetta og voru heillengi að losa sig í sundur og finna út hver átti hvern, minnir pínulítið á Bakkabræður og fætur þeirra í lauginni...

2006-02-03

 
EM er búið, a.m.k. hvað Ísland varðar. Konan mín er fegin. Ég veit ekki hvort það er vont eða slæmt.

 
Var að hlusta á lagið með Silvíu. Hún á eftir að massa þetta. Töff, töff, töff...

2006-02-02

 
Skrifaði einhvern tímann í byrjun janúar að mér liði eins og ég væri staddur í Bergen. Sá svo einhvers staðar, sennilega á mublinu að ekki hefði mælst meiri úrkoma í Reykjavík í janúar síðan 1947! Grámygla hvað?

This page is powered by Blogger. Isn't yours?