2006-02-11

 

Stóru bandarísku pallbílarnir

Mér hefur alltaf fundist þessir bílar algerlega út í hött. Þeir henta kannski fyrir byggingaverktaka eða búgarðseigendur í Texas en fyrir venjulegt fólk, ég tala nú ekki um borgarumferð eru þeir alveg glataðir. Síðan eyða þeir eins og meðal farþegaskip. En nú að því sem ég ætlaði að tala um.
Ég sá í fyrradag (stundum er það pirrandi að blogga ekki nema á prímtöludögum) ansi gott atriði þar sem slíkur pallbíl kom við sögu. Ég og Freyja vorum að koma úr sellótíma í Suzuki skólanum í Sóltúni. Þar í kring er verið að byggja á fullu og búið að setja umferðarkeilur út á götu til að vara mann við einhverjum holum í götunni. Við Freyja ætluðum að aka út af bílastæðinu hjá Suzuki skólanum. Þá kemur risastór pallbíll, fram hjá Ármannsheimilinu, inn á Hátúnið og ekur á eina keiluna. Ökumaðurinn tók greinilega ekkert eftir því. Ók bara áfram eins og ekkert hefði í skorist eftir Hátúninu og ýtti keilunni á undan sér. Við Freyja ókum í humátt á eftir og veltum fyrir okkur hvað liði langur tími áður en ökumaðurinn áttaði sig á þessu. Hann virtist hins vegar vera með slökkt á flestum ef ekki öllum skilningarvitum og það síðasta sem við sáum til hans var að hann beygði inn á stæði við blokkina næst Laugaveginum. Talandi um að taka eftir hvað er að gerast í kringum sig!

Comments:
Þessi saga minnir mig á systur vinkonu minnar sem ók með öskutunnuna sína hangandi aftan í litla bílnum sínum alla leið út á leikskóla barnanna. Heimferðin var hins vegar erfiðari, þá var hún óþægilega meðvituð um "viðhengið".
Saggði Parísardaman á laugardagsmorgni.
 
Ég veit ekki hvort er verra. Ýta umferðarkeilu eða draga á eftir sér öskutunnu. Hvort tveggja frekar vandræðalegt...
 
Skrifa ummæli



<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?