2006-09-23

 

Síðasta

umferðin í úrvalsdeild karla spiluð í dag. Mínir menn (Baslmenn) spiluðu við KR og þurftu endilega að missa leikinn niður í jafntefli á síðustu sekúndum leiksins. Grr. Þýddi að KRingar náðu að stela öðru sætinu af okkur. Grr.

2006-09-19

 

Eyrnavesen

Freyja greyið er að fara í eyrnaaðgerð í fyrramálið. Öfug röraðgerð. Það þarf að taka rör, sem losnar ekki af sjálfu sér. Einhver ofholdgun, sem heldur því föstu.

 

Svefnmeðal

Horfði á enska boltann í gærkvöldi. Svo sem ekki í frásögur færandi í sjálfu sér. En ég steinsofnaði undir þættinum. Þetta er í þriðja skipti í röð sem það gerist.

Spurningin er hvort það er röddin í Bjarna Fel. sem er svona svæfandi eða hvort það er boltinn?

2006-09-17

 

Eggjakast

Haldið þið ekki að það hafi ekki verið grýtt eggi á húsið okkar í fyrrinótt!

Veit ekki hvort menn eru farnir að taka með sér eggjabakka á djammið. Allavega hafði einu eggi verið hent á húsið okkar þegar ég kom út í gærmorgun. Rétt hjá var svo tómur eggjabakki.

Einhvern veginn finnst mér þetta verra heldur en ef að hefði verið krotað á húsið. Þetta er mun persónulegra ef svo má að orði komast.

2006-09-13

 

Námskeið

Ég fer hvorki á ítölsku né frönskunámskeið á þessari önn. Hins vegar bauðst mér að fara á .Net og C# forritunarnámskeið í boði vinnunnar (Hildigunnur kallar það Cís námskeið). Alvörunámskeið. Tvisvar í viku 3 tímar í senn. Byrjar á mánudaginn og stendur í 3 mánuði. Þetta var tækifæri sem ég gat ekki sleppt.

Veit hvað ég verð að gera í haust.

2006-09-11

 

Finnur

Skutlaði Finni í skólann á föstudaginn á bílnum. Þegar við vorum komnir í skólann þá ætlaði ég að fylgja honum inn í stofuna. Við vorum ekki komnir langt frá bílnum þegar Finnur sagði: „Þarft þú ekki að fara aftur í bílinn pabbi?“

Greinilega ekki það svalasta að vera fylgt að stofunni af pabba sínum...

2006-09-07

 

Capacent

var það heillin. Nýja nafnið á IMG mannafli liðsauka. Er ég einn um að finnast þetta hallærislegt? Fyrir utan að þýða ekki neitt og segja ekki neitt um starfsemina (svona svipað og þegar breski pósturinn varð að Accenture), þá er ekki nokkur leið að muna það.
Skil þó reyndar vel að ákveðið hafi verið að skipta um nafn. IMG mannafl liðsauki, ekki beint þjált.

2006-09-05

 

Ákvörðun

Er að bræða með mér hvort ég eigi að taka mér pásu í ítölsku og fara kannski að hressa upp á frönskuna í staðinn...

 

Utan við mig

Var frekar utan við mig á síðasta bloggdegi. Settist við tölvuna vel fyrir miðnætti þann þriðja. Skrifaði eitthvað smávegis en var ekki búinn að gefa neitt út. Síðan fór ég að skoða eitthvað á netinu, man ekki einu sinni hvað. Næst þegar ég leit á klukkuna þá var hún orðin 00:00:10. Garg! Ekki einu sinni hægt að redda þessu með Fibonacchi svindli...

2006-09-02

 

Brúarhlaup frh.

Hljóp 1/2 maraþon í Brúarhlaupinu í morgun. Þetta varð ekki eins skemmtilegt og ég var búinn að vonast eftir.

Þegar ég lagði af stað austur á Selfoss var nánast logn hér í Reykjavík. Ekki á Selfossi. Þegar ég kom þangað var stíf norðaustan átt. Ég vissi það strax og ég steig út úr bílnum að allar vonir um góðan tíma væru úr sögunni. Þá að hlaupinu: Fyrstu 12,5 km gengu reyndar mjög vel. Enda undan vindi að mestu leyti. Millitími á 10 km 41:16, sem var meira en mínútu betri tími en ég hljóp 10 km á í brúarhlaupinu í fyrra (n.b. ég hélt aftur af mér vegna þess að ég vissi að bakaleiðin yrði erfið). Síðan var snúið við á leiðinni til Stokkseyrarbakka eftir 12,5 km. Millitími u.þ.b. 51 mín. Eftir það var hlaupið á móti vindi. Í stuttu máli sagt þá tók mig jafn langan tíma að hlaupa síðustu 8,5 km og fyrri 12,5 km. þ.a. ég endaði á 1:41:58. Við erum að tala um 12 mínútur frá markmiðinu. :-(

Ástæðan fyrir því að ég kláraði var að þegar var snúið við, var ég eins langt frá Selfossi og hlaupið fór, einhvern veginn varð ég jú að komast í bílinn aftur!?

2006-09-01

 

Brúarhlaup

Var svo að skrá mig í 1/2 maraþon í Brúarhlaupinu á Selfossi, sem verður haldið á laugardaginn. Markmiðin ekki gefin upp nákvæmar en það að stefnt er á bætingu...

 

1. september

Ég veit, ég veit. 1. er ekki prímtöludagur. Var bara eitthvað að vesenast og svo var klukkan orðin rétt rúmlega miðnætti. Tek bara Fibonacchi á þetta að þessu sinni.

Pantaði í dag Litlafellið, bát sem siglingaklúbbur Samskipa á, fyrir sunnudaginn. Ætlum að fara í smá siglingu og aðeins að kíkja á sjóstöng. Bara vonandi að spáin rætist.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?