2006-08-23

 

Sæbrautin

Ég er hræddur um að það sé klúður í uppsiglingu þar sem verið er að færa Sæbrautina. Fyrst leist mér vel á þessar framkvæmdir því mér sýndist að ætti að sameina tvenn umferðarljós með nokkurra metra millibili (við Laugarnesveg og Klettagarða). Nú get ég ekki betur séð en eigi að halda þeim báðum. Ekki nóg með það. Búið er að bæta við einum algerlega óþörfum ljósum við höfuðstöðvar Glitnis. Þetta minnir bara helst á klúðrið hjá umferðarbrúnni yfir Hringbrautina.

Það verður líka spennandi að sjá hvort eitthvað verður gert til að auðvelda gangandi og hjólandi vegfarendum lífið á þessu svæði. Stígurinn, sem þarna hefur verið endaði fyrirvaralaust rétt hjá Klettagörðum.

2006-08-19

 

Vínuppboð

Við Hildigunnur skelltum okkur áðan á vínuppboð Glóbuss, sem haldið er í tilefni af menningarhátíð. Þarna voru ýmis spennandi vín boðin upp. Við buðum í nokkrar flöskur og Hildigunnur nældi í eina flösku af chablis frá einum af uppáhalds framleiðendunum okkar. Hin vínin enduðu öll á hærra verði en við vorum tilbúin að borga.

Fyrir tveimur árum fórum við á sama uppboð og þá sat fyrir framan okkur kona, sem fór algerlega á taugum þegar hún bauð í eitthvað. Hún lenti meðal annars a.m.k. tvisvar í að yfirbjóða sjálfa sig! Ég hélt nú ekki að það væri hægt að vera kvikari með spjaldið heldur en þessi kona. En viti menn. Í röðinni fyrir framan okkur áðan var karl, sem sló þessari fyrir tveimur árum rækilega við. Í eitt skiptið bauð hann í flösku. Boðin hljóðuðu eitthvað á þessa leið: 5000, spjaldið upp 5300, spjaldið aftur upp 5500 spjaldið enn einu sinni upp 5800 slegið. Ég gat ekki séð að neinn annar byði á móti honum í þessi fjögur skipti. Þetta var ekki í eina skiptið, sem hann lenti í að yfirbjóða sjálfan sig. Að lokum þá benti Einar Thoroddsen, uppboðshaldari, honum á að hann væri að yfirbjóða sjálfan sig. Spurning hvort hann hafi haldið að þetta væri blævængur en ekki uppboðsnúmer.

2006-08-17

 

Sudokur

Ekki smá sem sudokurnar eru erfiðar í Fréttablaðinu þessa dagana. Ég hef verið að kíkja á þær að undanförnu í fríinu. Get ekki séð að það sé alltaf hægt að leysa þær nema að giska á tölur í sumum tilvikum (þegar ég er búinn að fylla út allt sem hægt er og skoða svo alla reiti, sem eftir eru með tilliti til þess hvaða tölur geti komið þar fyrir). Nema það sé eitthvað trikk við lausnirnar sem ég kann ekki.

2006-08-13

 

Úrvinda

Ég var of þreyttur til að blogga í gær en tímdi samt ekki að missa af bloggdeginum. Þannig að ég tók frá smá pláss. Fékk síðan þessa ömurlegu magapest í nótt (örugglega það sama og Finnur var með í fyrradag og svo aftur í morgun). Er bara rétt að skreiðast á fætur núna :-(
Þetta þýðir líka að ég er hættur við að hlaupa í Reykjavíkurmaraþoni um næstu helgi. Ekkert gaman að hlaupa ef maður er ekki í toppformi. Grrr...
En að öðru jákvæðara. Við kláruðum undirvinnuna fyrir nýju stéttina í gær. Búin að vera svakaleg törn. 3 dagar í mokstur og svo lokasnurfus í gær. Feginn að þetta er búið í bili. Handleggirnir á mér eru líka fegnir, þvílíkar harðsperrur, sem ég er með.

2006-08-11

 

Öllu lendir maður nú í...

Þeir sem lesa bloggið hennar Hildigunnar eru eflaust búnir að heyra af dramanu, sem ég lenti í í gær. Við erum semsé að skipta um jarðveg fyrir nýja stétt. Áttum von á gámi í gær fyrir jarðveginn og vorum búin að taka frá 3 stæði + eitt sem er ekki merkt sem stæði en samt alltaf nýtt sem slíkt. Nema hvað, svona hálftíma áður en bíllinn með gáminn kom þá stoppar jeppi fyrir framan hjá okkur. Út úr bílnum kemur maður og ýtir til hliðar stól sem var í stæðinu og sest inn í bíl. Ég þaut út til að útskýra fyrir honum að við þyrftum að nota stæðin undir gám sem væri á leiðinni og það væri ekki hægt að koma honum fyrir ef lagt væri í þetta stæði. Gaurinn lét eins og hann heyrði þetta ekki og byrjaði að mjaka sér inn í stæðið. Þá stillti ég mér upp fyrir framan bílinn til að stoppa hann. Þá gerði hann sér lítið fyrir og ók á mig! Ekkert mjög fast reyndar en þó þannig að ég hrökklaðist til baka. Ég varð alveg fokvondur (gerist ekki oft) reif upp hurðina og hellti mér yfir þennan vitleysing. Hann var samt ekkert á því að láta sig, tönnlaðist á því að Reykjavíkurborg ætti þessi stæði og hann mætti alveg leggja í þau (sem er í sjálfu sér alveg rétt en aðstæður hér í miðbænum eru bara þannig að ekki er hægt að koma svona gámi fyrir nema í bílastæðum). Hins vegar eftir að ég hafði hringt á lögguna og Gunnar nágranni okkar blandaði sér í rifrildið þá lét gaurinn undan síga. Það síðasta sem hann sagði var: „Ég get svosem farið“. Eins gott að maður lendir ekki oft í svona fírum.

2006-08-07

 
Vorum með matarboð í gær. Í sjálfu sér ekki í frásögur færandi nema að við vorum með
þennan forrétt, sem sló algerlega í gegn.
Við höfðum gert hann einu sinni áður. Hann er talsvert vesen (sérstaklega ef maður býr til pastað sjálfur en það er eiginlega samt nauðsynlegt) en þvílíkt þess virði.

2006-08-03

 

Klikkaði

grjóthausinn ég fór út að skokka áðan. 1:06:25 er ekkert alveg glataður tími á 15 km. Veðrið var reyndar ekkert sérstaklega hagstætt rigndi allan tímann. Man ekki hvenær ég var síðast svona gegnvotur. Var þess vegna frekar feginn að hafa hætt við að skrá mig í Vatnsmýrarhlaupið. Mætti keppendum sem voru að reyna að hita sig upp þegar ég var að klára hringinn, litu ekkert sérlega vel út.

 

Sumar

og blogg og ég fara greinilega ekki vel saman. Er búinn að missa af fullt af bloggdögum af einskærri leti. Þetta lagast vonandi með haustinu.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?