2006-01-31

 
Þá er fyrsti ítölskutíminn hjá mér á þessari önn. Námskeiðið byrjaði reyndar í síðustu viku en ég neyddist til að skrópa þá. Fínt að byrja aftur.

 

Skemmileggjarar

Hvað er málið með Fréttablaðið þessa dagana? Á föstudaginn í Birtu var umfjöllun um 5. seríu 24. Þar tókst þeim að ljóstra upp verulega mikilvægum atriðum án þess að koma með nokkra aðvörun. Á laugardaginn eða sunnudaginn var síðan umfjöllun á dagskrársíðunni og þar var sama sagan: Sagt frá sömu atriðum án viðvörunar.
Fífa féll beint í gildruna í Birtu og ég svo í seinni gildruna. Hrmpfff...

 
Handboltalandsliðið er aldeilis að gera það gott þessa dagana á EM. Árangurinn fram að þessu er þegar kominn fram úr mínum björtustu vonum. Liðið á reyndar verulega erfiðan leik fyrir höndum á morgun gegn Króötum. Nái það hins vegar góðum úrslitum í honum (jafntefli eða sigur) þá eru undanúrslit innan seilingar. Sjáum til.
Veit að bloggið mitt er farið að hljóma eins og eitthvað íþróttablogg en ég mátti bara til eftir sigurleik gegn Rússum. Íslenska karlalandsliðið hefur aldrei unnið þá áður í leik á stórmóti!

 
Garg! Síðasta færsla lenti á rangri dagsetningu. Var búinn að skrifa hana og geymdi hana sem uppkast. Var síðan orðinn svo syfjaður að ég fór að sofa fyrir miðnætti og bað Hildigunni að gefa hana út eftir miðnætti. En þá tekur Blogger greinilega tímann sem færslan var skrifuð sem uppkast en ekki þegar hún er gefin út.

2006-01-30

 
Ég er ekki hissa á því að það sé tap hjá Kodak ef gæðin eru svona

2006-01-29

 
Var frekar hneykslaður á umfjöllun í Fréttablaðinu um ungverska landsliðið í handbolta, sem við spiluðum svo við síðar í dag. Höfundur sagði meðal annars að íslenska liðið væri miklu betra en það ungverska og við ættum að vinna auðveldan sigur á venjulegum degi (líklega hefur dagurinn í dag þá verið óvenjulegur). Síðan fór hann út í umfjöllun um einstaka leikmenn m.a. að miðjumaðurinn væri lélegur (hann skoraði ekki nema 8 eða 9 mörk). Allt í lagi menn geta haft sína skoðun á einstökum leikmönnum. Rúsínan í pylsuendanum var þegar hann lýsti helstu skyttu Ungverja, Laszlo Nagy: „Þetta er súkkulaðisætur strákur með vel gelað hár sem kann því illa að andstæðingurinn sé að rugla í hárinu á honum“. Síðar í greininni þá bætti hann um betur og sagði að Nagy hefði orð á sér fyrir að vera latur. Hvað er orðið um að bera virðingu fyrir andstæðingum ég bara spyr?

 
Var á árlegu innanhússfótboltamóti Samskipa í gær. Tölvudeildin smalaði saman í lið (reyndar 2 ef út í það er farið). Okkur gekk svona sæmilega, lentum í 7 sæti af 13. Misstum reyndar besta manninn okkar áður en mótið hófst. Hann fékk lungnabólgu í fyrrinótt.
Fengum ein verðlaun. Fyrir fáránlegustu mistökin. Markvörðurinn okkar missti boltann á milli fótanna á sér. Frekar vandræðalegt.

2006-01-23

 
Dularfullt.
Fyrir utan hjá okkur áðan voru tveir sjúkrabílar í lengri tíma. Annar bíllinn mannlaus. En eitthvað að gerast í hinum. Seint og um síðir fóru tveir úr hinum bílnum í þann mannlausa og síðan lögðu þeir báðir af stað löturhægt út götuna. Hm?

 
Fékk slóðina að þessu senda í vinnunni. Algjör snilld ef maður á ekki bóluplast.

 
Ég var klukkaður af Hildigunni

Fernt sem ég hef unnið við:

Byggingavinnu
Kornskurð
Forritun
Í loftlínuflokk hjá Rafmagnsveitu Reykjavíkur

Fjórar bíómyndir sem ég gæti horft á aftur og aftur (talandi um erfitt val):

La strada
Shawshank Redemption
Life of Brian
Með allt á hreinu

Fjórir sjónvarpsþættir sem ég fíla:

Lost
Desperate housewifes
24
Allo, allo (ok, þeir eru gamlir en það stóð ekkert um að þeir þyrftu að vera sýndir núna)

Fjórir höfundar sem ég les:

Carl Hiaasen
Minette Walters
John Gribbin
Jasper Fforde

Fjórir staðir sem ég hef búið á:

Njálsgötu 6
Toftebæksvej 55, Lyngby, Danmörku
Odda á Rangárvöllum
Skúlagötu 62

Fjórir staðir sem ég hef heimsótt í fríum.

Heidelberg
Bologna
Sousse
London

Fjórar síður sem ég kíki daglega á (erfitt)

Hildigunnur
Mikkalistinn
planet-f1.com
Baggalútur

Fernt matarkyns sem ég held upp á: (Arg, hvernig á maður að velja hérna, reyni samt)

Paprikusnitsel
Osso buco Milanese
Boeuf à la Bourguignonne
Grillaður skötuselur

Fjórir staðir sem ég vildi heldur vera á núna:

Rio de Janeiro
Nýja Sjálandi
Jamaika
Tahítí

Fjórir bloggarar sem ég klukka

Held ég geri bara eins og Nanna og sleppi því að klukka aðra bloggara. Og þó klukka tvo:
Freyju og
Finn
Það er kannski gustuk að klukka líka bloggletingjann
bróður minn.

2006-01-19

 

Krumlublaðra

Frakkarnir aðeins of stór biti í háls. Þó við höfum tapað með 4 mörkum þá leist mér ekki illa á íslenska liðið. Vantaði aðeins einbeitingu síðasta korterið. Frakkarnir eru með firnasterkt lið og gætu orðið ofarlega á EM. Held samt að við eigum alveg að geta tekið Frakkana á laugardaginn.

 
mbl.is átti góðan sprett áðan. Þar sagði frá því að allmargir árekstrar hefðu orðið í borginni síðdegis. Síðan kom þetta: „Telur lögreglan að þetta megi rekja til þess að hálka hafi tekið að myndast á götum borgarinnar er hitastig fór niður fyrir frostmark.‟ Hm. jú það gerist víst oft þegar frýs.

 
Jibbí
Var að panta miða til Kaupmannahafnar áðan. Fer samt ekki fyrr en í vor. Hitti þar Hildigunni og Hallveigu. Síðan liggur leiðin til Prag. Hef ekki komið þangað í óratíma. Hlakka til.

2006-01-17

 
Lítur aðeins skár út með Þjórsárverin núna. Þá er bara að vona að þingmenn drífi sig í að breyta lögum og stækka friðlandið ásamt því að afnema heimild fyrir Norðlingaölduveitu. Eina sem virðist geta stoppað Landsvirkjun.
Þeir væla ekkert smá um að aðrir virkjanakostir séu miklu dýrari en þessi. Gott og vel. Það eru bara sumir staðir sem ættu að vera ósnertanlegir sama hvað kostnaði líður. Annars er bara hægt að vaða í Gullfoss og Dettifoss.

 

Gettu betur

Hlustaði á Gettu betur í útvarpinu í kvöld.
3 viðureignir.
Borgarholt vann auðveldan sigur á VMA.
MR rótburstaði FB. Greinilegt að FB leggur ekki mikla áherslu á GB. MR liðið virkaði hins vegar nokkuð vel smurt. Þeir voru þó ekkert allt of sannfærandi í seinni hlutanum. Kom þó ekki að sök fyrir þá því andstæðingurinn var svo slakur.
Að síðustu kepptu Kvennó (er það ekki samt hallærislegt að í liði frá Kvennó sé engin stelpa?) við framhaldsskólann í Vestmannaeyjum og voru bæði lið vægast sagt arfaslök. Staðan 5:2 eftir hraðaspurningar. Þarf að segja meira? Þessi viðureign var þó sú eina sem nálgaðist að vera spennandi.
Mér fannst spyrill og dómari standa sig vel og spurningarnar fjölbreyttar.

2006-01-13

 
Hana. Þá er ég loksins búinn að laga č-ið í Strč.

 
Finnur er að fá nýja víólu.
Reyndar er þetta fyrsta fiðlan hennar Fífu, sem er breytt í víólu með því að víxla strengjum. Finnur er ekkert smá ánægður með þetta, sérstaklega með bogann, sem er miklu stærri en sá gamli.

2006-01-11

 
Við keyptum okkur nýja vigt fyrir nokkrum dögum. Vorum ekki búin að vera með baðvigt í nokkra mánuði. Gerði síðan þá skelfilegu uppgötvun að hafa þyngst um 4-5 kíló síðan í sumar. Nú er það bara harkan 6. Kílóin skulu burt fyrir miðjan apríl!

2006-01-07

 
Vorum á tónleikum með Tallis Scholars í kvöld. Fínir tónleikar en samkvæmt áliti sérfróðra er kórinn farinn að dala. Fórum síðan í boð hjá Breska sendiráðinu. (Flaut með vegna þess að Hildigunnur er að syngja með Carminu kammerkórnum og Tallis Scholars annað kvöld). Hef ekki farið í svona sendiráðsteiti áður. Fullt af víni en næstum því ekkert að borða!

 
Finnur lenti í vandræðum í kvöld. Festist í húfunni sinni. Þurfti sýslumannsfrú úr Árnessýslu til að losa hann úr prísundinni.

2006-01-05

 

Plögg

Já var næstum búinn að gleyma. uppáhaldsvínbirginn okkar er með útsölu. Hægt að panta frá honum í öllum Vínbúðum. Rosa góð vín.

 
Get ekki orða bundist yfir forsíðunni á Blaðinu í dag. Málblóm eins og „Má ekki hlægja að pabba‟, „Hvað má kaupa fyrir aurinn‟ og svo rúsínan í pylsuendanum: „Frábært ár framundan hjá Ragnhildur‟! Prófarkalesarinn hefur greinilega brugðið sér í frí.

 
Hvernig er það, hefur eitthvað stytt upp á þessu ári? Mér er farið að líða eins og ég búi í Bergen.

2006-01-03

 
Fyrsti innanhússboltatíminn á árinu í kvöld. Bæði gaman og leiðinlegt. Gaman að vera byrjaður aftur í bolta, leiðinlegt að tapa. Grrrr.

 

Rósafinka


Rósafinka
Originally uploaded by hildigunnur.
Stelpurnar náðu þessari mynd af fugli út í garði. Höfum aldrei séð svona fugl áður. Eftir að hafa kannað málið í fuglum Evrópu höldum við helst að þetta sé rósafinka, kvenfugl.

2006-01-02

 
Ok, ég viðurkenni. Ég er tækjafíkill. Nú er ég búinn að hlaupa helstu hringina mína með Garmin hlaupa gps tækinu, sem ég fékk í jólagjöf. Ótrúlega svöl græja. Eini mínusinn er að flestir hringirnir virðast vera heldur styttri en ég hafði áætlað. Og tímarnir þar af leiðandi slappari sem því nemur.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?