2006-12-11

 

Já bjórsmakkið

Hildigunnur var nánast búin að lofa að ég myndi tjá mig eitthvað um bjórsmakkið, sem við fórum í hjá Kalla sl. föstudag. Þannig að nú er best að láta verða af því.

Þetta er í fyrsta sinn sem við förum í bjórsmakk. Þannig að maður vissi ekki alveg við hverju mætti búast. Smökkunin hófst á Hoegaarden hveitibjór og Franziskaner sem er líka hveitibjór. Við Hildigunnur höfðum ekki smakkað hveitibjór í áreiðanlega 15 ár og þótti hvorugu góður þá. Á þessum 15 árum hefur smekkurinn greinilega breyst. Ég segi nú ekki að maður fari að hlaupa út í ríki eftir honum en það mátti vel skola honum niður.

Því næst var prófaður Duvel, belgískur bjór sem er 8,5%! Samt ekki hægt að finna það á bragðinu. Þetta er ljós bjór en samt ekki pilsner týpa. Mjög góður. Þessu næst komu tveir bjórar frá Samuel Adams í Boston. Sá fyrri var lager, fínn frá þessu trausta brugghúsi. Sá síðari var svo winterlager, mun fyllri og betri bjór.

Þá var röðin komin að fallbyssunum. Dreginn var upp Orval, sem er belgískur Trappistabjór. Miklar seremóníur þarf til að hella þessum bjór í glösin því helst ekkert af botnfallinu má fara með. Ég hafði ekki smakkað bjór af þessu tagi í álíka langan tíma og hveitibjóra. Hafði ekki kunnað við bragðið þá en bragðlaukarnir hafa greinilega þroskast. Mér fannst Orval a.m.k. mjög fínn núna. Svo til samanburðar dró Kalli upp Orval sem hann var búinn að geyma í ár. Ótrúlegur munur á „sama“ bjórnum. Þessi var ef eitthvað var enn betri.

Að lokum var dregin fram enn önnur kanóna en það var Chimay 2003 ef ég man rétt. Ég hefði ekki trúað að það væri hægt að búa til bjór með svona slungnu bragði.

Þegar hér var komið sögu voru bjórarnir á smakklistanum búnir. Kalli var hins vegar kominn í ham og kom með bjór sem ég man ekki hvað heitir (gleymdi smakknótunum mínum á sófaborðinu). Svona af svipuðum klassa og Orvalinn og Chimayinn.

Þetta var alveg snilldarkvöld og fyrir mér opnaði þetta alveg nýjar víddir. Sérstaklega hvað varðar belgísku bjórana. Takk kærlega fyrir mig.

Comments:
Takk fyrir síðast :)

Þessi sem þig vantar nafnið á er örugglega Westmalle Dubbel.
 
Já, nákvæmlega. Var búinn að skrá þetta allt samviskusamlega niður. Og gleymdi svo blaðinu hjá þér.
 
Skrifa ummæli



<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?