2006-06-23

 

Stofnanahremmingar

Lenti í undarlegum samskiptum í gær við ákveðna stofnun hér í bæ.

Forsagan er sú að við þurfum að senda ákveðnar skrár til þessarar stofnunar. Í fyrradag hafði samband við mig samstarfsmaður minn og vildi fá mig til að athuga um tvær slíkar skrár, sem kæmust ekki til skila. Ég skoða málið og sé að skrárnar hafa farið frá okkur en ekki verið samþykktar hjá stofnuninni af ástæðum, sem ég vissi ekki hverjar væru. Þannig að ég fer inn á vef stofnunarinnar og skrifaði niður lýsingu á vandamálinu. Þetta var í lok vinnudags í fyrradag.

Í gær var síðan komið svar:

Þú verður að láta okkur hafa sendingarnúmer.

Ég svaraði:
Ég er búinn að finna hvað var að annarri skránni en sendingarnúmerin í hinni eru x, y og z.

Nokkrum mínútum síðar kom svar:
Fyrst þú ert búinn að finna út úr þessu þá skaltu bara endursenda skrárnar.

Ég:
Er búinn að endursenda skrána, sem ég var búinn að finna út hvað var að. Sendingarnúmerin í hinni eru x, y og z.

Nokkrum mínútum síðar kom svarið:
Ef þú átt í vandræðum þá skaltu frekar hringja í okkur.

Nú var ég farinn að verða svolítið pirraður en hugsaði: Allt í lagi ef hann vill frekar að ég tali við hann í síma þá það.

Þannig að ég hringdi í hann og samtalið var efnislega á þessa leið:

Ég:
Góðan daginn. Ég er að hringja út af skrám, sem við erum búnir að vera í tölvupóstsambandi um...

Hann:
Já einmitt. (blaðar eitthvað hjá sér) Þetta er örugglega vegna þess að brottförin er ekki rétt skráð. Hvernig er þetta kannt þú ekkert á þetta?

Ég (frekar hvumsa):
Tja ég skráði þetta nú ekki. Ég er bara að reyna að leysa þetta mál. Skrárnar fóru frá okkur en stöðvast hjá ykkur.

Hann:
Já það er nú örugglega allt í lagi hjá okkur. Eru þetta kannski ungar stúlkur sem skráðu þetta hjá ykkur?

Ég:
Flýtti mér að ljúka samtalinu svo ég myndi ekki hreyta einhverju í hann.

Því er svo við þetta að bæta að málið leystist að lokum án „aðstoðar“ þessa manns. Þess má geta að ástæðan fyrir veseninu lá hjá stofnuninni.

Comments:
Er mannfýlan með minnimáttarkennd gagnvart ungum stúlkum? Spyr Kristín í París.
 
Það lítur út fyrir það. Og mannfýla það var rétta orðið
 
Skrifa ummæli



<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?